Athugasemdir frá Mosfellsbæ

Mosfellsbær vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við fréttaflutning blaðamanns mbl.is. Taka skal fram að ekki er verið að finna að málflutningi tveggja viðmælenda sem eru í fréttinni að lýsa eigin skoðunum.

Fréttamaður: “Íbúar í Álafosskvosinni í Mosfellsbæ vilja láta stöðva framkvæmdir við vegtengingu milli Álafosskvosar og Helgafellsvegar. Vegakaflinn er til bráðabirgða að sögn bæjaryfirvalda en íbúarnir telja hann skapa slysahættu.” 


Rétt er: Íbúar í Álafosskvos hafa ítrekað óskað eftir því við Mosfellsbæ að ný vegtenging Álafosskvosar og Helgafellsvegar verði hrint í framkvæmd. Á íbúafundi með íbúum Álafosskvosar var skipaður sérstakur samráðshópur um deiliskipulag Álafosskvosarinnar þar sem sérstaklega hefur verið fjallað um þessa tengingu og sátt er um hana á þessum vettvangi.

 

Sérstök áhersla hefur verið lögð á af hálfu samráðshópsins að í framkvæmdina verði ráðist sem fyrst. Mosfellsbær féllst á rök samráðshópsins um brýna nauðsyn tengivegarins og ákvað því að ráðast í gerð bráðabirgðatengingar. Tengingin er til bráðabirgða vegna þess að ekki hefur verið samþykkt endurskoðað deiliskipulag fyrir Álafosskvos, sem er í vinnslu og samráðshópurinn kemur meðal annars að. Samráðshópurinn lagði áherslu á að ný tenging yrði gerð til bráðabirgða í stað þess að bíða þar til endurskoðun deiliskipulags Álafosskvosar væri lokið.

Þessi nýja tenging mun draga verulega úr slysahættu við núverandi tengingu og hefur lögregla bent á nauðsyn þess að ráðist verði á úrbætur á núverandi tengingu hið fyrsta. Fyrirhugað var að leggja vegtenginguna milli Helgafellsvegar og Álafosskvosar samhliða Varmá, og rífa eldri hús. Eftir athugasemdir frá íbúum var ákveðið að breyta vegstæði tengingarinnar að teknu tilliti sjónarmiða íbúa og umhverfissjónarmiða og er af þeim sökum meðal annars verði að endurskoða deiliskipulag fyrir Álafosskvos. 

Fréttamaður: “Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafa viðurkennt að Helgafellsvegur er ekki í samræmi við deiliskipulag. Hann liggur einum metra of hátt í landinu og til að hann geti tengst Kvosinni þarf að lækka hann. Þegar Helgafellsvegur var lagður sögðu bæjaryfirvöld hins vegar að hann væri aðeins lagnavegur vegna holræsis. Nokkrum vikum síðar var hann malbikaður og við hann voru reistir ljósastaurar. Þá var ljóst að hann var kominn til að vera. Íbúar eru því fullir grunsemda þegar hafist er handa við vegtengingu milli Helgafellsvegar og Kvosarinnar og hún sögð til bráðabirgða til þess að mæta kvörtunum íbúa og vegna þess að verktakar hafi gengið illa frá. Ekki liggur fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir Kvosina og íbúar segja framkvæmd vegarins því ólöglega og hafa kært hana. 


Rétt er: Samþykkt bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ á Helgafellsvegi er í samræmi við deiliskipulag og tók hönnun vegarins mið af því. Eftir að framkvæmdum Helgafellsvegar lauk kom hins vegar í ljós að vegurinn er að hluta til í ósamræmi við samþykktir bæjarfélagsins og hefur Mosfellsbær unnið að lausn málsins í samvinnu við verktaka. Til stendur að leiðrétta hæð vegarins og verður það gert samhliða framkvæmd við nýja bráðabirgðatengingu inn í Álafosskvos.

 

Vinnuvegur vegna lagnaframkvæmda var lagður nokkurn veginn á vegstæði fyrirhugaðs Helgafellsvegar vorið 2007. Einu til einu og hálfu ári síðar var vegurinn fullfrágenginn.

 

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, forstöðumaður kynningarmála hjá Mosfellsbæ.

 
mbl.is Íbúar í Álafosskvos kæra Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband